Körfubolti

Luka sá fyrsti í sögunni með sex þrennur í röð með þrjá­tíu stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic hefur spilað frábærlega síðustu vikur og er farinn að slá met í NBA-deildinni.
Luka Doncic hefur spilað frábærlega síðustu vikur og er farinn að slá met í NBA-deildinni. AP/Carlos Osorio

Luka Doncic náði sögulegu afreki í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar Dallas Mavericks vann 142-124 sigur á Detroit Pistons.

Doncic endaði leikinn með 39 stig, 10 stoðsendingar og 10 fráköst. Þetta var sjötta þrennan hans í röð og í þeim öllum hefur hann skorað þrjátíu stig eða meira.

Russell Westbrook átti gamla metið en hann náði á sínum tíma þrennum í fimm leikjum í röð með þrjátíu stig. Westbrook gerði þetta á 2016-17 tímabilinu.

Doncic er einnig búinn að skora að minnsta kosti 35 stig í síðustu fimm þrennum sínum sem er einnig met.

Slóveninn er illviðráðanlegur og í síðustu nítján leikjum sínum er hann með 36,9 stig, 10,0 fráköst og 10,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Þetta sýnir bara á hvaða getustigi hann er spila þessa dagana. Hann veit að hann getur skorað en hann er einnig að finna liðsfélaga og undanfarið er hann líka farinn að frákasta,“ sagði Jason Kidd, þjálfari Dallas Mavericks.

Kyrie Irving bætti við 21 stigi fyrir Dallas liðið sem vann þarna sinn annan leik í röð eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð þar á undan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×