Innlent

Odd­vitar Sjálf­stæðis­flokksins um allt land krefja Heiðu skýringa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Oddvita Sjálfstæðisflokksins saka Heiðu Björgu Hilmisdóttur um að hafa unnið þvert á vilja sveitarfélaganna.
Oddvita Sjálfstæðisflokksins saka Heiðu Björgu Hilmisdóttur um að hafa unnið þvert á vilja sveitarfélaganna. Vísir/Vilhelm

Tuttugu og sex oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum út um allt land gagnrýna formann Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir að fara gegn vilja sveitarfélaganna í aðkomu sinni að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

„Því var treyst að formaður myndi starfa sam­kvæmt ein­dregn­um vilja sveita­stjórna og bók­un stjórn­ar og myndi upp­lýsa aðila vinnu­markaðar­ins og for­sæt­is­ráðherra um af­stöðuna með skýr­um hætti. Ljóst er að svo var ekki,“ segja oddvitarnir í sameiginlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Í greininni segir að oddvitarnir fagni nýgerðum kjarasamningum en á sama tíma hafi „aðþrengd“ sveitarfélögin fengið í fangið gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Meginkrafan á sveitarfélögin hefði frá upphafi snúið að hóflegum gjaldskrárhækkunum, sem sveitarfélögin hefðu ætlað að bregðast við en hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir hefðu fyrst verið kynntar á fundi fyrir rúmum tveimur vikum.

Um það bil 50 fulltrúar sveitarfélaga hefðu verið viðstaddir umræddan fund og það komið flestum á óvart að sveitarfélögin væru allt í einu orðin lykilbreyta í kjaraviðræðunum og með þessum hætti. Andstaðan á fundinum hefði verið nær einróma og ekki einskorðast við Sjálfstæðisflokkinn.

„Brún okk­ar sveit­ar­stjórn­ar­manna þyngd­ist enn þegar í ljós kom að viðræður for­manns­ins við rík­is­valdið hóf­ust í upp­hafi árs og var fram­haldið í lok janú­ar eða mánuði áður en sveit­ar­stjórn­ar­fólki var kynnt þessi hug­mynd.“

Annar fundur var haldinn 1. mars og enn var mikil mótstaða meðal flestra sem tjáðu sig, segja oddvitarnir.

Stjórn sambandsins samþykkti í framhaldinu eftirfarandi bókun:

„Stjórn Sam­bands­ins ósk­ar eft­ir því að rík­is­valdið leiti annarra leiða við að út­færa mark­mið um gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir en beint í gegn­um gjald­skrár sveit­ar­fé­laga. Stjórn­in er reiðubú­in til sam­tals um málið á breiðum grund­velli með það að leiðarljósi að tryggja barna­fjöl­skyld­um kjara­bæt­ur og vel­ferð.“

Oddvitarnir segja formanninn hins vegar ekki hafa unnið samkvæmt vilja sveitarstjórna né bókun stjórnar og þá hafi hún haldið því ranglega fram í fjölmiðlum að sátt ríkti um framkvæmdina.

„Í dag hitt­ast sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­ar af öllu land­inu á ársþingi Sam­bands­ins og þar er afar mik­il­vægt að formaður­inn skýri aðkomu sína að kjara­samn­ings­gerð á al­menn­um markaði,“ segja oddvitarnir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×