Körfubolti

Tróð svo svaka­lega að puttinn fór úr lið og hann sjálfur fékk gæsa­húð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards átti mögulega troðslu ársins í sigri Minnesota Timberwolves í nótt.
Anthony Edwards átti mögulega troðslu ársins í sigri Minnesota Timberwolves í nótt. Getty/Alex Goodlett

Það var um fátt annað talað eftir NBA-nóttina en rosalega kraftatroðslu Anthony Edwards. Hann tróð svo svakalega yfir John Collins hjá Utah Jazz að þeir meiddust báðir.

Edwards er mikill skemmtikraftur inn á vellinum og ekki er hann síður skemmtilegur utan hans. Hann lék á alls oddi eftir leikinn sem Minnesota Timberwolves vann.

Troðslan leit dagsins ljós í þriðja leikhluta en Edwards var í miklu stuði í seinni hálfleiknum þar sem hann skoraði 25 af 32 stigum sínum.

„Ég hélt að ég myndi klikka af því að ég var svo langt frá körfunni en guð kom mér til aðstoðar og ég náði í körfuna,“ sagði Anthony Edwards.

Hann talaði um aðdáun sína á Vince Carter eftir leikinn.

„Ég fæ gæsahúð að hugsa um þetta því ég ætlaði mér alltaf að troða yfir einhvern svona,“ sagði Edwards.

Collins og Edwards meiddist báðir. Putti á Edwards fór úr lið eftir að hann lenti á kinnbeini Collins. Edwards hljóp inn í klefa lét teipa fingurinn og kom síðan aftur inn í leikinn.

Collins spilaði ekki meira í leiknum.

Hér fyrir neðan má sjá Edwards horfa aftur á körfuna í viðtali eftir leikinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×