Starfsemin á Dalveginum er mjög fjölbreytt og standa sig allir vel í sínum verkefnum.
„Við erum að vinna ýmiskonar verkefni, bæði hér innanhúss og sem við fáum frá öðrum aðilum héðan og þaðan. Við erum til dæmis að setja í umslög í plast og við erum með leirherbergi hérna þar sem við erum að leira og brenna leirinn og við erum með smíðaherbergi þar sem við vinnum allskonar smíðaverkefni,” segir Sigrún Bryndísardóttir, þroskaþjálfi.
„Hér koma um 36 fatlaðir starfsmenn eins og við köllum það og við erum svona liðlega 50 allt í allt. Þetta er rosalega gefandi starf, mér finnst mjög gott að vinna við þetta, þetta er æðislegt,” segir Þórður Guðmundsson, yfirþroskaþjálfi.
Starfsendurhæfingarstöðin fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir og verður haldið upp á tímamótin með markaði á opnunartíma stöðvarinnar fyrstu dagana í apríl.

„Ég er duglegur að vinna og mest gaman að vinna,“ segir Elías Gastao Cumaio, starfsmaður Hæfingarstöðvarinnar.

„Ég er að mála á boli, það er mjög skemmtilegt,“ segir Eiríka Ýr Sigurðardóttir, starfsmaður Hæfingarstöðvarinnar.

Og svo er það kaffikvörnin, sem Hlynur Jónsson hefur yfirumsjón með, með aðstoð Guðrúnar Eikar starfsmanns.
„Við erum við með þessa fínu græju, sem að mylur kaffið fyrir okkur og svo getum við vigtað það í poka til að senda fólkinu. Allir geta verið í áskrift þannig að það fær poka í hverjum mánuði af kaffi og við græjum allt hérna og setjum í poka og svona.Þetta er skemmtilegt verkefni að vinna, það er alltaf nóg að gera í kaffinu,” segja þau Hlynur og Guðrún Eik.