Körfubolti

Þýðingar­mikill leikur fyrir KR sýndur í beinni út­sendingu

Aron Guðmundsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson tók við þjálfun KR fyrir tímabilið og honum til aðstoðar hefur verið spilandi aðstoðarþjálfarinn Adama Darboe. Undir þeirra stjórn er KR nú hársbreidd frá sæti í Subway deildinni en þarf sigur í kvöld til að tryggja sætið
Jakob Örn Sigurðarson tók við þjálfun KR fyrir tímabilið og honum til aðstoðar hefur verið spilandi aðstoðarþjálfarinn Adama Darboe. Undir þeirra stjórn er KR nú hársbreidd frá sæti í Subway deildinni en þarf sigur í kvöld til að tryggja sætið MYND: KR Karfa

Þýðingarmikill leikur Ármanns og KR í lokaumferð 1.deildarinnar í körfubolta verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 í kvöld. Beri KR sigur úr býtum er endurkoma liðsins í efstu deild staðfest og deildarmeistaratitill 1.deildar sömuleiðis. 

Bein útsending frá leiknum, sem fer fram í Laugardalshöll, hefst klukkan fimm mínútur yfir sjö í kvöld. KR, sannkallað stórveldi í íslenskum körfubolta með átján Íslandsmeistaratitla á ferilskránni, féll niður úr efstu deild á síðasta tímabili. 

Jakob Örn Sigurðarson, fyrrverandi leikmaður félagsins, sem á að baki feril sem atvinnu- og landsliðsmaður, tók við þjálfun þess fyrir yfirstandandi tímabil og KR-liðið er sem stendur á tólf leikja sigurgöngu, á toppi 1.deildar fyrir lokaumferðina í kvöld og hefur aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu.

Skammt undan eru hins vegar ÍR-ingar með tveimur stigum minna. Fari svo að KR tapi í kvöld og ÍR vinni á sama tíma sinn leik í lokaumferðinni verður raunin sú að ÍR fer beint upp en KR færi þá í úrslitakeppni 1.deildar sem inniheldur liðin sem enda í öðru til fimmta sæti deildarinnar.

Ansi spennandi kvöld framundan í 1.deildinni. Ekki missa af leik Ármanns og KR í lokaumferð deildarinnar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×