Fram undan eru tveir landsleikir í undankeppni EM þar sem Ísland mætir Lúxemborg ytra miðvikudaginn 3. apríl kl. 16:45 og lýkur undankeppninni á heimaleik við Færeyjar sunnudaginn 7. apríl kl. 16, á Ásvöllum.
Valur Páll Eiríksson leit við á æfingu hjá landsliðinu og tók nokkrar landsliðskonur tali, þar á meðal Steinunni sem var spennt fyrir komandi leikjum en viðurkenndi þó að aðstæður væru ögn öðruvísu en vanalega.
„Þetta er pínu öðruvísi, ég viðurkenni það“, að vera með hugann líka við einn lítinn fjögurra mánaða en bara yndislegt!“
Hún gat ekki gefið neinar skýringar á þeim „ofurkonustælum“ að vera mætt aftur í landsliðið svo skömmu eftir barnsburð.
„Ég veit ekki hvað skal segja. Ég held ég sé bara heppin, ég legg inn náttúrulega mikla vinnu á meðgöngu svo bara gengu hlutirnir bara vel. Eigum við ekki að segja að þetta sé eitthvað svona genalottó?“
Steinunn, sem er 33 ára, hefur verið lengi í landsliðinu sem hefur tekið töluverðum breytingum á þeim tíma en hún sagði hópinn vera gríðarlega sterkan og markmiðið væri skýrt. Viðtalið í heild má sjá hér að ofan.