Körfubolti

Stjarnan er töl­­fræði­­lega besta lið sögunnar sem komst ekki í úr­slita­keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bærginsson og félagar í Stjörnunni eru komnir í sumarfrí þrátt fyrir sigur í gær og ellefu sigra í deildarkeppninni.
Hlynur Bærginsson og félagar í Stjörnunni eru komnir í sumarfrí þrátt fyrir sigur í gær og ellefu sigra í deildarkeppninni. Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn misstu af úrslitakeppni Subway deildar karla í körfubolta þrátt fyrir að vinna helming leikja sinna í deildarkeppninni. Það hefur aldrei gerst áður.

Þrjú lið enduðu jöfn með ellefu sigra og ellefu töp en Stjarnan kom verst út í innbyrðis leikjum þessara þriggja liða.

Stjarnan vann Blika og þurfti að treysta á það að Höttur myndi vinna nágranna þeirra á Álftanesi. Álftnesingar tryggðu sér hins vegar sjötta sætið með sigri og Hattarmenn enduðu með jafnmörg stig og Tindastóll og Stjarnan.

Það þýddi að Hattarmenn duttu niður um eitt sæti í áttunda sæti en jafnframt hoppuðu Íslandsmeistarar Tindastóls upp um tvö sæti og í sjöunda sætið.

Það sem fór með Stjörnuna var sautján stiga tap liðsins á Egilsstöðum í nóvember þar sem liðið skoraði aðeins 72 stig í leiknum. Stjarnan vann seinni leikinn en bara með tíu stigum. Þessi mismunur réði því að Garðabæjarliðið er ekki með í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í sextán ár.

Stjarnan er því fyrsta félagið til að vinna ellefu leikju í 22 leikja deild og komast ekki í úrslitakeppnina. Þeir bættu með þessu met Njarðvíkinga frá 2017 sem unnu tíu leiki en sátu samt eftir með sárt ennið.

  • Besta sigurhlutfall liðs sem hefur ekki komust í úrslitakeppni:
  • (Síðan deildin varð 12 liða og 22 leikja deild 1996/97)
  • 50% Stjarnan 2023-24 (11 sigrar - 11 töp)
  • 45% Njarðvík 2016-17 (10 sigrar - 12 töp)
  • 41% Breiðablik 2021-22 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Njarðvík 2020-21 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Þór Þorl. 2017-18 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Haukar 2016-17 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Snæfell 2014-15 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% ÍR 2013-14 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Stjarnan 2007-08 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Haukar 2004-05 (9 sigrar - 13 töp)
  • 41% Skallagrímur 1997-98 (9 sigrar - 13 töp)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×