Parið deilir gleðifregnunum í sameiginlegri færslu á samfélagsmiðlum þar sem má sjá son þeirra glaðlegan á svip með sónarmynd í hönd. „Elsku besti kallinn okkar er svo spenntur fyrir nýju hlutverki í september.“
Vilhjálmur starfar sem verkefnastjóri stafrænnar kennslu í Háskólanum í Reykjavík og hefur Edda sjálf heillað þjóðina með frammistöðu sinni á skjánum sem íþróttafréttakona á RÚV og einnig hefur hún unnið sem dagskrágerðarkona í Landanum.
Parið hefur rætt samband sitt á opinskáan hátt. Þau kynntust innan veggja RÚV og urðu fljótt góðir vinir. Þau voru lengst af í sitthvoru sambandinu en fóru að stinga saman nefjum eftir að þau urðu bæði einhleyp.
„Ég var samt alveg mjög hrædd við það fyrst, því þetta er náttúrlega hræðileg hugmynd, að byrja með eiginlega besta vini sínum og samstarfsmanni. Engin heilvita manneskja gerir það,“ sagði einlæg Edda á sínum tíma í hlaðvarpsþætti af Betri helmingnum með Ása.