Körfubolti

Segir að hann verði bráðum bestur í NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards er aðalmaðurinn í liði Minnesota Timberwolves sem vann 56 leiki í deildarkeppni NBA.
Anthony Edwards er aðalmaðurinn í liði Minnesota Timberwolves sem vann 56 leiki í deildarkeppni NBA. getty/Stephen Maturen

Það vantar ekki sjálfstraustið í Anthony Edwards, leikmann Minnesota Timberwolves. Hann segir að hann verði orðinn besti leikmaður NBA-deildarinnar áður en langt um líður.

Minnesota valdi Edwards með fyrsta valrétti í nýliðavali NBA 2020. Hann hefur vaxið á hverju ári frá því hann kom inn í deildina og er orðinn einn allra besti leikmaður hennar.

Í samtali við ESPN sagðist Edwards eiga enn meira inni og hann geti orðið miklu betri leikmaður en hann er núna.

„Ég er bara á fjórða ári. Ég held að fólk gleymi að ég er 22 ára. Ég er ekki einu sinni farinn að nálgast toppinn,“ sagði Edwards.

Hann var svo spurður hvort hann gæti orðið besti leikmaður NBA í framtíðinni og ekki stóð á svari hjá honum.

„Já, ég er hundrað prósent sammála. Eftir tvö til þrjú ár,“ sagði Edwards sem var með 25,9 stig, 5,4 fráköst og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í deildarkeppninni.

Úlfarnir unnu 56 leiki, sem er næstbesti árangur í sögu félagsins, og enduðu í 3. sæti Vesturdeildarinnar. Í 1. umferð úrslitakeppninnar mætir Minnesota Phoenix Suns.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×