Áhöfn björgunarskipsins Björg í Rifi var kölluð út um klukkan 12:30 í dag. Þá hafði vél smábáts bilað undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi. Björg var siglt úr höfn um 12:45 og var björgunarskipið komið að bátnum um 45 mínútum síðar.
Ekki amaði að áhöfn smábátsins og var báturinn tekinn í tog til Rifs. Þar var svo landað úr bátnum.
Í tilkynningu frá Landsbjörg segir einnig að í hádeginu hafi útkall borist til Björgunarfélags Akraness vegna manns sem hafði lent í sjálfheldu við gönguleiðina upp að Glym. Hann hafði reynt að vaða yfir Glymsá en vanmetið straumþunga hennar.
Maðurinn féll í Glymsá en hann komst að sjálfsdáðum upp úr henni. Það var þó á hinum bakkanum og treysti hann sér ekki yfir ánna aftur.
Björgunarsveitarfólk fór yfir Glymsá með þurrbúning fyrir manninn og var honum hjálpað yfir hana aftur.
Þá barst á öðrum tímanum í dag tilkynning um vélsleðaslys við Háskerðing, norður af Mýrdalsjökli. Þar hafði einn úr hópi björgunarsveitarfólks velt sleða sínum. Sleðahópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík var ekki langt frá og voru fljótir á slysstað. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig á flugi þar nálægt og var hún notuð til að flytja manninn á sjúkrahús á Selfossi.
Upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá verkefnum dagsins.





