Landris undir Svartsengi er nú svipað og hefur verið undanfarin misseri þegar eldgos hafa hafist á svæðinu. Benedikt Ófeigsson fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands segir allt geta gerst.
„Það er talsverð óvissa með framhaldið. Landrisið við Svartsengi er komið að þessum hefðbundnu mörkum þegar gos getur hafist. Þá kemur tvennt til greina, nýtt eldgos eða að það sem fyrir er stækki verulega. Það gæti opnast eins til þriggja kílómetra sprunga með nánast engum fyrirvara,“ segir Benedikt.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur beint til fólks að fara ekki fótgangandi að gosinu vegna yfirvofandi hættu á nýju eldgosi.
„Ég veit að fólk hefur verið að stelast til að ganga að eldgosinu en það er ekki skynsamlegt á þessari stundu,“ segir hann.
Hann segir nýtt eldgos geta hafist fyrirvaralaust.
„Það getur gosið á næstu sólarhringum. Kvikusöfnunin undir Svartsengi er nú tíu milljón rúmmetrar. Áður höfum við séð gos eftir átta til þrettán milljón rúmmetra. Þá er mögulegt að slíkt gos hefjist án nokkurs fyrirvara,“ segir Benedikt.