Körfubolti

Kyrie kann að loka einvígum og Dallas sló loksins út Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving fagnar í sigri Dallas Mavericks. Hann fór í gang í seinni hálfleik og kláraði einvígið á móti Clippers.
Kyrie Irving fagnar í sigri Dallas Mavericks. Hann fór í gang í seinni hálfleik og kláraði einvígið á móti Clippers. AP/Mark J. Terrill

Dallas Mavericks varð í nótt fjórða og síðasta liðið í Vesturdeildinni til að tryggja sér sæti í undanúrslitum í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta en við fáum aftur á móti oddaleik í síðasta einvíginu austan megin.

Dallas vann 114-101 sigur á Los Angeles Clippers og mætir Oklahoma City Thunder í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Orlando Magic og Cleveland Cavaliers spila aftur á móti hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar og oddaleikurinn hjá þeim fer fram á morgun. Fimmtíu stig frá Donovan Mitchell dugðu ekki til að klára einvígið.

Dallas maðurinn Kyrie Irving var fyrir leikinn í nótt 12-0 á ferlinum í leikjum þar sem hann getur klárað einvígi í úrslitakeppninni og hann bætti enn einum sigrinum við á móti Clippers. Hann kann heldur betur að klára einvígi.

Irving var frábær með 30 stig og hann gerði endanlega út um leikinn með fjögurra stiga sókn í fjórða leikhlutanum. Setti þá niður þrist og víti að auki. Hann tók annars yfir leikinn í seinni hálfleiknum og var þá með 28 af 30 stigum sínum.

Þetta var langþráður sigur hjá Dallas því Clippers hafði slegið þá út þrisvar sinnum í fyrstu umferð á síðustu fimm árum.

Luka Doncic var með 28 stig og 13 stoðsendingar en hitti ekki vel. Hann var aðeins 1 af 10 í þriggja stiga skotum.

Paul George var með 18 stig og 11 fráköst og James Harden bætti við 16 stigum og 13 stoðsendingum. Harden klikkaði á öllum sex þriggja stiga skotum sínum.

Það munaði auðvitað mikið um það að Kawhi Leonard meiddist í einvíginu og spilaði ekki í þremur síðustu leikjunum.

Paolo Banchero skoraði 27 stig þegar Orlando Magic tryggði sér oddaleik með 103-96 sigri á Cleveland Cavaliers. Franz Wagner bætti við 26 stigum og Jalen Suggs (22 stg) hitti úr sex þriggja stiga skotum.

Banchero skoraði 10 af 27 stigum sínum í fjórða leikhlutanum sem Orlando vann 30-18 og forðaði sér frá sumarfríi. Nú er liðið bara einum sigri frá undanúrslitaeinvígi á móti Boston Celtics.

Donovan Mitchell var magnaður í liði Cleveland með fimmtíu stig en það dugði ekki til. Hann hitti úr 22 af 36 skotum sínum þar af 3 af 9 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Darius Garland skoraði 21 stig en vandamálið var slök þriggja stiga nýting liðsins þar sem aðeins 7 af 28 skotum rötuðu rétta leið (25%).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×