Báturinn sem um ræðir var tiltölulega lítill og var notaður til að reyna að stöðva drónann, samkvæmt yfirlýsingu frá GUR.
Þessir drónar hafa verið notaðir til að sökkva fjölda rússneskra herskipa á Svartahafi frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst. Það eru fjarstýrðir drónar sem geta marrað í hálfu kafi og geta borið mikið magn sprengiefna. Þeim hefur ítrekað verið siglt í miklum fjölda að rússneskum herskipum og drónarnir sprengdir upp við skipin.
Sjá einnig: Sökktu enn einu herskipinu
Tveimur skipum sem hönnuð eru til að flytja hermenn til orrustu var grandað á sama flóa í fyrra. Annað þeirra hét Sesar Kúnikov og var sú árás einnig gerð af GUR.
Í tilkynningu frá GUR segir að Rússar þori ekki lengur að nota stór herskip á Svartahafi, vegna árása Úkraínumanna og vegna þess hve mörgum skipum þeir hafi sökkt.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að fimm drónum hafi verið grandað. Myndband sem ráðuneytið birti sýnir að þyrla var notuð til að verjast drónunum.
Rússneskir herbloggarar hafa haldið því fram í morgun að Úkraínumenn hafi komið loftvarnarflugskeytum fyrir á einhverjum drónum eins og Magura V5. Þyrlur hafa reynst Rússum vel í að granda drónum þessum úr lofti.
Hér á neðan má sjá myndband sem mun hafa verið tekið um borð í rússneskri þyrlu í morgun. Þyrlan grandar drónanum á endanum en sjá má flugskeyti á drónanum.
Footage from a Russian Ka-29 helicopter, firing at the Ukrainian naval drone carrying a R-73 air-to-air missile. Eventually it is destroyed. https://t.co/r1LwNiRLmN pic.twitter.com/6qBPHwrqTX
— NOELREPORTS 🇪🇺 🇺🇦 (@NOELreports) May 6, 2024