Þegar réttarhöldin héldu áfram í morgun byrjaði Merchan að því að úrskurða gegn Trump og sakaði hann forsetann fyrrverandi um beinar árásir gegn „réttarríkinu.“ Þetta er í annað sinn sem Merchan úrskurðar með þessum hætti gegn Trump og í heildina fyrir tíu brot á þagnarskyldunni.
Merchan beindi orðum sínum beint að Trump og sagði að ef hann bryti af sér aftur, gæti hann endað í fangelsi. Merchan sagðist ekki langa að fangelsa Trump en sagðist þurfa að hugsa um dómskerfið.
Trump sagði ekkert, samkvæmt frétt New York Times, en hristi höfuðið þegar Merchan lauk máli sínu og sektaði Trump um þúsund dali. Hann var áður sektaður um níu þúsund dali.
Sjá einnig: Trump sektaður um meira en milljón króna
Meðal þess sem Trump var refsað fyrir að þessu sinni voru ummæli hans í viðtali í síðasta mánuði þar sem hann gaf í skyn að kviðdómendurnir í málinu væru spilltir og ósanngjarnir. Merchan sagði Trump ekki eingöngu hafa gefið í skyn að réttarhöldin væru ólögmæt, heldur hefði hann enn og aftur gefið kviðdómendum tilefni til að óttast um öryggi þeirra.
Snýst um þagnargreiðslu
Umrætt dómsmál er eitt af fjórum dómsmálum gegn Trump og snýr í stuttu máli sagt að því þegar Michael Cohen, fyrrverandi einkalögmaður hans, greiddi Stormy Daniels, fyrrverandi klámmyndaleikkonu, 130 þúsund dali skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016. Greiðslunni var ætlað að koma í veg fyrir að Daniels segði frá meintu framhjáhaldi Trumps með henni á árum áður.
Trump endurgreiddi Cohen en þær greiðslur voru skráðar í bókhald forsetans fyrrverandi sem lögfræðikostnaður og er hann sakaður um að hafa falsað skjöl í 34 liðum. Verði hann dæmdur sekur gæti hann verið dæmdur til allt að fjögurra ára fangelsisvistar.
Merchan múlbatt Trump fyrst í mars og herti úrskurð sinn í upphafi apríl. Upprunalega bannaði dómarinn Trump að tjá sig um vitni, kviðdómendur og aðra sem tengjast réttarhöldunum en bætti svo dóttur sinni við listann, þar sem Trump hafði farið með falskar yfirlýsingar um hana á Truth Social.
Þriðja vika réttarhaldanna hófst í morgun en fyrsta vitni saksóknara í dag er Jeffrey McConney, sem starfaði á árum áður hjá Trump. Meðal annars hefur hann sagt frá því hvernig fyrirtæki Trumps endurgreiddi Cohen vegna greiðslunnar til Daniels.