ÍR-ingar fylgja því KR-ingum upp í úrvalsdeildina en KR fór beint upp eftir að hafa unnið deildina.
Liðin féllu bæði óvænt í fyrravor, aðeins fjórum árum eftir að þau léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Þau voru aftur á móti snögg að vinna sér aftur sæti meðal þeirra bestu.
KR hafði betur eftir hörku baráttu um deildarmeistaratitilinn en ÍR-ingar sýndu styrk sinn í úrslitakeppninni.
— ÍR Körfubolti (@irkarfa) May 13, 2024
ÍR vann alla níu leiki sína í úrslitakeppninni, unnu Selfoss 3-0 í átta liða úrslitunum, Þór Akureyri 3-0 í undanúrslitunum og loks Sindra 3-0 í úrslitaeinvíginu.
ÍR vann fyrsta leik úrslitaeinvígisins með átta stigum (83-75), leik tvö á Hornafirði með tólf stigum (85-73) og loks þriðja leikinn í Mjóddinni í gær með 34 stigum (109-75).

ÍR hafði ekki spilað í 1. deildinni í næstum því aldarfjórðung eða síðan liðið var þar tímabilið 1999-2000.
Hákon Hjálmarsson, hélt tryggð við sitt félag, og leiddi liðið upp í efstu deild á ný. Hann skoraði 18 stig í leiknum í gær en var með 14 stig og 10 stoðsendingar í leiknum á undan.
Collin Pryor spilaði einnig áfram með liðinu en hann var með 17 stig og 10 fráköst í gær.
Þá hefur hinn ungi Friðrik Leó Curtis haldið áfram að vaxa og dafna í vetur en þessi 210 sentimetra strákur var með 18 stig, 10 fráköst, 4 stolna bolta og 2 varin skot í leiknum í gær.
Hinn 24 ára gamli Ísak Máni Wíum hélt einnig áfram þjálfun liðsins og skilaði sínu félagi aftur upp í úrvalsdeildina eins fljótt og mögulegt var.