Slysið varð á sjötta tímanum síðdegis í gær, á Rangárvallavegi við bæinn Stokkalæk í Rangárþingi ytra, skammt norðaustur af Hvolsvelli. Um borð í rútunni voru 26 íslenskir farþegar í hópferð, auk bílstjóra. Sjö voru fluttir á slysadeild í Reykjavík með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar, en aðrir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Yfirlögregluþjónn segir vettvangsrannsókn lokið.
„Núna er bara verið að fara yfir gögn og skipuleggja fyrirhugaðar skýrslustökur af bæði farþegum og bílstjóra,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Skýrslur verði teknar af öllum, en óljóst er hvenær hægt verður að klára það verkefni, enda um fjölda fólks að ræða.

Ræða mögulega við bílstjórann í dag
Jón Gunnar segir aðstæður á vettvangi hafa verið nokkuð góðar með tilliti til veðurs.
„En það sjást ummerki á veginum, það er nýbúið að hefla þennan veg og hann er mjúkur. Það er að vora og vegirnir geta verið mjúkir. Það voru ummerki um að vegurinn hafi að hluta til gefið sig, en þetta er allt eitthvað sem á eftir að staðfesta í samtali við bílstjóra líka.“
Mögulegt er að rætt verði við bílstjórann í dag, hvort sem um formlega skýrslutöku verði að ræða eða ekki. Hann er ekki í hópi þeirra verst slösuðu.
„Þetta eru meiðsli af öllum toga, allt frá marblettum og upp úr. Þeir sem slösuðust hvað alvarlegast eru ennþá á spítala, en síðustu fréttir sem við höfum eru að það séu allir stabílir,“ sagði Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Enginn leitaði til Rauða krossins
Rauði krossinn á Íslandi opnaði í gær söfnunarsvæði aðstandenda vegna slyssins á Eyrarvegi 23 á Selfossi í húsnæði Rauða krossins í Árnessýslu. Edda Björk Hjörleifsdóttir, formaður deildarinnar, segir engan hafa leitað á söfnunarsvæðið en áfallateymi deildarinnar hafi sinnt hluta hópsins á spítalanum.