Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að strokið hafi uppgötvast þegar viðvörunarkerfi stöðvarinnar tilkynnti of háa vatnsstöðu í tanki. Vatn flæddi uppúr og fiskur lenti á gólfi stöðvarinnar.
Einhver hluti fiskanna hafi náð að fara í gegnum ristar sem eru á niðurföllum á gólfi og bárust út í sjó. Seiðin voru um fjörutíu grömm að meðalvigt og ósmoltuð en í tankinum voru 516.159 seiði fyrir atburðinn. Litlar líkur eru á því að seiðin hafi getað smoltast í frárennsli og orðið sjógönguhæf, því er ólíklegt að þau lifi af í sjó.
„Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila enduðu 22.352 seiði á gólfi fiskeldisstöðvarinnar en fyrir utan útrásina úr stöð fundust 104 dauð seiði. Net voru lögð í sjó en ekkert veiddist. Talning seiða í tanki eftir atburðinn hefur ekki farið fram,“ segir í tilkynningunni.
Matvælastofnun hefur kallað eftir gögnum og upplýsingum er varða viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til rannsóknar hjá stofnuninni.