Körfubolti

Segir að Golden State banni Wiggins að spila á ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrew Wiggins varð NBA-meistari með Golden State Warriors fyrir tveimur árum.
Andrew Wiggins varð NBA-meistari með Golden State Warriors fyrir tveimur árum. getty/Thearon W. Henderson

Framkvæmdastjóri kanadíska körfuboltalandsliðsins segir að Golden State Warriors banni Andrew Wiggins að spila á Ólympíuleikunum í París. Félagið hefur aðra sögu að segja.

Wiggins var einn tuttugu leikmanna sem var valinn í æfingahóp kanadíska landsliðsins fyrir Ólympíuleikana. En hann mun ekki mæta í æfingabúðirnar að sögn Rowan Barrett, framkvæmdastjóra kanadíska körfuboltalandsliðsins.

„Við vorum í stöðugu sambandi við Andrew, hann hafði æft í nokkrar vikur til að vera tilbúinn fyrir Ólympíuleikana. En síðan fékk ég símtal frá Golden State 1-2 dögum fyrir æfingabúðirnar þar sem þeir meinuðu honum að taka þátt,“ sagði Barrett.

„Eins og þetta horfir við mér er þetta ekki ákvörðun Andrews heldur félagsins. Svo hann verður ekki með okkur.“

Golden State sagði hins vegar við AP fréttastofuna að þetta væri sameiginleg ákvörðun félagsins og Wiggins.

Þrjú ár eru síðan Wiggins spilaði síðast með kanadíska landsliðinu. Kanada hefur ekki keppt á Ólympíuleikum síðan í Sydney fyrir 24 árum. Kanadamenn ættu, þrátt fyrir fjarveru Wiggins, að geta teflt fram býsna sterku liði í París enda með leikmenn eins og Shai Gilgeous-Alexander, Jamal Murray, RJ Barrett og Kelly Olynyk innan sinna raða. Kanada vann brons á HM í fyrra.

Mamma Wiggins, Marita, vann tvenn silfurverðlaun fyrir hönd Kanada í boðhlaupi á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×