Erlent

Sunak segir af sér og hættir sem leið­togi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sunak bað þjóðina afsökunar á frammistöðu sinni sem ráðherra en flokkur hans beið afhroð í kosningunum. 
Sunak bað þjóðina afsökunar á frammistöðu sinni sem ráðherra en flokkur hans beið afhroð í kosningunum.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Rishi Sunak fór í morgun ásamt eiginkonu sinni Akshata Murty á fund Karls Bretakonungs þar sem hann sagði af sér embætti forsætisráðherra en íhaldsflokkurinn beið afhroð í kosningunum sem fram fóru í gær.

Áður en Sunak hélt á fund konungs hélt hann stutta ræðu fyrir utan heimili sitt í Downingstræti 10 þar sem hann ávarpaði þjóðina. Í ræðunni baðst hann afsökunar en sagðist hafa lagt allt í sölurnar fyrir Íhaldsflokkinn og Breta. Þjóðin hafi hinsvegar sent skýr skilaboð um að breytinga sé þörf.

„Ég hef fundið fyrir reiði ykkar,“ sagði Sunak meðal annars áður en hann hitti konung í Buckingham-höll. Talsmenn konungs hafa síðan sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að konungur hafi fallist á afsögn ráðherrans.

Sunak tilkynnti einnig um þá ávkörðun sína að hann ætli að hætta sem leiðtogi  Íhaldsflokksins en það mun þó ekki gerast fyrr en eftirmaður hans hefur verið fundinn. Nú tekur við nýtt tímabil fyrir Íhaldsflokkinn eftir fjórtán ár á valdastóli þar sem Bretar hafa gengið í gegnum miklar breytingar, ekki síst Brexit.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins er síðan væntanlegur á fund konungs á eftir þar sem honum verður boðið að mynda næstu ríkisstjórn, eins og lög gera ráð fyrir. Búist er við því að hann ávarpi bresku þjóðina af tröppum Downingstrætis 10, um klukkan hálftólf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×