Körfubolti

Banda­ríkja­menn unnu stór­sigur og mæta Serbum í undan­úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Devin Booker var stigahæstur Bandaríkjamanna.
Devin Booker var stigahæstur Bandaríkjamanna. Marvin Ibo Guengoer - GES Sportfoto/Getty Images

Bandaríska körfuboltalandsliðið tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum körfuboltakeppninnar á Ólympíuleikunum í París er liðið vann afar öruggan 35 stiga sigur gegn Brasilíu.

Brasilíska liðið komst yfir í tvígang í upphafi leiks, í stöðunni 2-0 og aftur í 4-2, en það var líka í eina skiptið sem liðið hafði forystuna.

Bandaríkjamenn náðu mest 16 stiga forskoti í fyrsta leikhluta og í hálfleik var munurinn á liðunum 27 stig, staðan 63-36, Bandaríkjunum í vil.

Bandaríska liðið gaf aðeins eftir í þriðja leikhluta, en forysta þeirra var þó aldrei nálægt því að vera í hættu. í Lokaleikhlutanum gáfu þeir í á nýjan leik og unnu að lokum öruggan 35 stiga sigur, 122-87.

Devin Booker var stigahæstur í liði Bandaríkjamanna með 18 stig og á eftir honum kom Anthony Edwards með 17 stig. Stigahæsti maður vallarins kom hins vegar úr röðum brasilíska liðsins, en Bruno Caboclo skoraði 30 stig fyrir Brassana.

Bandaríkjamenn eru þar með komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Serbum. Þá unnu Frakkar góðan níu stiga sigur gegn Kanada á sama tíma og mæta þeir Þjóðverjum í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×