Hin tuttugu ára gamla Vivian er trans kona en Musk hefur áður tjáð sig á opinberum vettvangi um dóttur sína. Hann hefur sagt hana hafa verið „myrta af woke hugarvírus“ þegar hún hóf kynleiðréttingarferli sitt, að því er fram kemur í umfjöllun PageSix.
Vivian segir í færslu sinni að Musk hætti ekki að ljúga til um börn sín. Hún segir hann ekki vera fjölskyldumann, heldur hafi hann ítrekað gerst sekur um framhjáhald. Þá segir Vivian Musk aldrei hafa stigið fæti inn í kirkju, hann sé alls ekki kristinn og þá ýjar hún að því að hann sé rasisti. Hann hafi sagt við hana sex ára gamla að arabíska væri „tungumál óvinarins“.
Hinn 53 ára gamli milljarðamæringur á tólf börn með þremur konum. Vivian eignaðist hann með fyrstu eiginkonu sinni Justine Wilson. Hann hefur áður fullyrt að hann hafi verið blekktur til þess að undirrita pappíra sem heimiluðu Vivian að hefja kynleiðréttingarferlið og að honum liði líkt og hann hefði misst barn sitt. Vivian hefur gefið lítið fyrir ummæli föður síns og sagt hann ala á hatri á trans fólki með ummælum sínum.