Dóttir Hjálmars, Margrét Halla Hjálmarsdóttir, og kærasti hennar Jóhann Hrafn Sigurjónsson eignuðust sitt fyrsta barn saman 12. ágúst síðastliðinn. Fyrir á Jóhann eina stúlku.
Afi athyglisbrestur
Aðspurður segir Hjálmar ætla að verða léttur, ljúfur og kátur afi. Þá telur hann sig vera fyrstu kynslóð af afa sem er með viðurkenndan athyligsbrest.
„Ég er mjög spenntur fyrir að sinna þessu hlutverki. Nú er ég faðir fjögurra barna en þegar litla afastelpan kom í heiminn var þetta allt öðruvísi upplifun. Mér líður eins og ég er sé að búa til ættlegg alveg eins og afi minn gerði þetta. Nú er the legacy beginning,“ segir Hjálmar á léttum nótum í samtali við Vísi.
Hjálmar deilir gleðitíðindunum í færslu á Instagram. Þar má sjá mynd af honum með afastelpuna í fanginu.
„Elsku bestu Margrét dóttir mín og Jóhann kærastinn hennar eignuðust þessa fullkomnu stelpu í gær! Núna er ég orðinn afi og því ber að fagna! Innilega til hamingju.“
Hjálmar, sem heldur úti einu vinsælasta hlaðvarpi landsins Hæ hæ með vini sínum Helga Jean Claessen, tjáði hlustendum þáttarins fyrr á árinu að hann væri að verða afi í ágúst: „Þetta var alveg frábært og alveg geggjuð tilfinning.“
Hjálmar er flestum kunnugur og hefur hann meðal annars slegið í gegn sem Hvítvínskonan.