Körfubolti

Caitlin Clark þakkaði dómaranum fyrir tæknivilluna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark var ekki alveg sátt þarna í leik Indianan Fever á móti Seattle Storm. Hún brosti aftur á móti í leikslok.
Caitlin Clark var ekki alveg sátt þarna í leik Indianan Fever á móti Seattle Storm. Hún brosti aftur á móti í leikslok. Getty/Chet White

Caitlin Clark og félagar hennar í Indiana Fever eru að byrja mjög vel eftir að WNBA deildin í körfubolta fór aftur af stað eftir Ólympíuleikana í París.

Fever vann 92-75 sigur á Seattle Storm í gær eftir að hafa unnið lið Phoenix Mercury í fyrsta leiknum.

Clark setti enn eitt metið í gær þegar hún var sá nýliði sem hefur gefið flestar stoðsendingar á einu tímabili. Hún sló það met þrátt fyrir að liðið hennar eigi enn eftir að spila tólf leiki á leiktíðinni.

Clark var með 23 stig og 9 stoðsendingar í leiknum í gær. Hún ræddi þó eitt atvik sérstaklega á blaðamannafundi eftir leikinn.

Clark fékk tæknivillu fyrir að slá í undirstöður körfunnar í svekkelsi. Hún var mjög hissa á því að fá refsingu frá dómaranum.

„Ég fékk tæknivillu fyrir að vera reið út í mig sjálfa. Ég klikkaði á þriggja stiga skoti og sló í undirstöðurnar. Hann sagði mér að ég hefði sýnt íþróttinni óvirðingu með þessu,“ sagði Clark.

„Ég var bara pirruð. Þetta hafði ekkert að gera með liðið mitt, mótherjana eða dómarana. Þetta var bara af því að ég er keppniskona og fannst ég hafa átt að hitta úr fleiri skotum,“ sagði Clark.

„Ég held samt að hann hafi bara kveikt á mér og fengið til að spila af enn meiri krafti. Mér fannst við verða miklu betri eftir þetta þannig að ég vil þakka dómaranum fyrir þetta,“ sagði Clark brosandi. Það má sjá þetta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×