Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kom fram að forsetinn hefði lagt áherslu á mikilvægi þess að koma á vopnahlé og að öllum gíslum verði sleppt úr haldi. Þá sagði hann viðræðurnar í Kaíró mikilvægar til að leysa úr þeim ágreiningi sem enn á eftir að leysa úr.
Þá segir í yfirlýsingunni að þeir hafi einnig rætt aðgerðir Bandaríkjanna sem eigi að styðja við Ísrael og vernda þau fyrir hótunum frá Íran og frá Hamas, Hezbollah og Hútum.
Símtalið fylgdi heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, til Miðausturlanda en henni lauk í gær, þriðjudag. Blinken yfirgaf Mið-Austurlönd í gær eftir fundi með Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, Abdel Fattah al-Sisi, forseta Egyptalands, og fleirum.
Fram kemur í frétt Reuters að Kamala Harris, varaforseti og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hafi einnig tekið þátt í símtalinu. Harris tekur formlega við tilnefningu flokksins um að vera forsetaframbjóðandi hans á morgun á ráðstefnu flokksins í Chicago.
Þar kemur einnig fram að Biden sé eins og stendur í fríi með fjölskyldu sinni í Kaliforníu. Það er talið honum afar mikilvægt að koma á vopnahléi á meðan hann er forseti. Greint var frá því fyrr í dag að samningaviðræðurnar strandi á kröfu Hamas um algert brotthvarf Ísrael frá Gasa, þar á meðal frá svæði sem kallað er Fíladelfíu-gangurinn. Gangurinn er 14,5 kílómetra langt landsvæði við landamæri Egyptalands. Ísraelar vilja halda landsvæðinu en þeir náðu því á sitt vald í maí. Þeir sögðust hafa eyðilagt á svæðinu tugi gangna sem hafi verið notuð til að smygla vopnum til stríðandi fylkinga á Gasa.