Lífið

Haf­þór ekki lengur vin­sælasti Ís­lendingurinn á Instagram

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Topp fimm vinsæluust Íslendingarnir á Instagram.
Topp fimm vinsæluust Íslendingarnir á Instagram.

Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir hefur tekið fram úr aflraunamanninum Hafþóri Júlíusi Björnssyni sem vinsælasti Íslendingurinn á samfélagsmiðlinum Instagram. Laufey er nú með rétt rúmlega 4,4 milljónir fylgjenda en Hafþór er með 4,3 milljónir.

Eins og alþjóð veit hefur stjarna Laufeyjar aldrei skinið skærar. Í júlí síðastliðnum var Laufey sæmd Ellu Fitzgerald verðlaunum sem veitt eru árlega á jazzhátíðinni í Montreal í Kanada. Hún fetar í fótspor frægra listamanna sem eru sem dæmi Diana Ross, Etta James, Tony Bennett, Diana Krall og Aretha Franklin.

Laufey hlaut eftirminnilega Grammy verðlaun fyrir plötu sína Bewitched fyrr á árinu. Platan  kom út þann 8. september í fyrra og sló í kjölfarið met hjá Spotify en eftir fyrsta sólarhringinn var plötunni streymt 5,7 milljón sinnum, en það er langmesta spilun sem djassplata hefur fengið á tónlistarveitunni á fyrsta sólarhring eftir útgáfu.

Tvöfalt fylgi á nokkrum mánuðum

Laufey tók fram úr tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur sem vinsælasti Íslendingurinn á Instagram í desember í fyrra. Þá var Laufey með rétt tvær milljónir fylgjenda en Björk með 1,97 milljónir. Í dag er Björk með 2 milljónir fylgjenda.

Í fjórða og fimmta sæti yfir vinsælustu Íslendingana á Instagram eru Crossfit-konurnar Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir, báðar með 1,7 milljón fylgjenda.

Hér að neðan má sjá topp 5 listann eins og hann er núna:

Laufey Lín Jónsdóttir - 4,4 milljónir

Hafþór Júlíus Björnsson- 4,3 milljónir

Björk Guðmundsdóttir - 2 milljónir

Katrín Tanja Davíðsdóttir - 1,7 milljónir

Sara Sigmundsdóttir- 1,7 milljónir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×