Meiri jarðskjálftavirkni mælist nú í en í fyrri gosum á svæðinu en Veðurstofan telur líklegt að það sé vegna staðsetningar eldgossins en það er norðar nú en áður. Í tilkynningu segir að um tuttugu skjálftar hafi mælst í kvikuganginum síðasta sólarhring og 110 skjálftar síðan á mánudag, 26. ágúst. Það er að mestu bundið við virka gossvæðið.
Þá mælist einnig enn landsig í Svartsengi en í tilkynningu segir að það sé að hægja á því. Það sé svipuð þróun og í síðasta gosi og kvikuhólfið því enn að tæmast hraðar en flæðir inn í það.
Þá kemur fram í tilkynningunni að hættumat hafi verið uppfært og gildi að öllu óbreyttu til 3. september, til þriðjudags í næstu viku. Helstu breytingarnar eru samkvæmt tilkynningunni á svæði 1 sem fer úr töluverðri (appelsínugul) hættu í nokkur (gul) hætta.

„Breytingin er gerð með tilliti til minni hættu vegna hraunflæði, gasmengunar og gjóskufalls. Minni gasmengun hefur einnig áhrif á Svæði 4 (Grindavík) og 7 samkvæmt gasdreifingarspá næstu daga. Svæðið innan brotalínunnar á Svæði 5 táknar líklega þróun hraunsins eftir nokkra daga,“ segir í tilkynningunni.
Gasdreifingarspá fyrir daginn í dag er norðvestan 3-8 m/s og fer gasmengun í suðaustur. Snýst í vestan- og suðvestanátt í kvöld og þá blæs gasinu í austur og norðaustur yfir suðvestanvert landið.
Á morgun er sunnan 10-15 (föstudag) og mengunin berst norður yfir Voga á Vatnsleysuströnd. Upplýsingar um loftgæði er að finna á vef Umhverfisstofnunar.