Þriggja klukkustunda meðaltal brennisteinsdíoxíð hefur farið upp í þúsund míkrógrömm á rúmmetra í Vogum í dag samkvæmt Facebook-færslu sem Veðurstofa Íslands birti nú um klukkan tíu í kvöld.

Þegar svo há gildi mælist sé fólki ráðlagt að loka gluggum og halda sig innandyra nema í brýnustu erindagjörðum. Loftmengun frá eldgosinu geti valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk vægra flensueinkenna.
Loftmengunin á enn að berast í norðurátt í ríkjandi sunnanátt næstu daga. Hins vegar er spáð töluverðri úrkomu á suðvesturhorninu sem getur dregið úr menguninni, sérstaklega svifryksmengun frá gróðureldunum á gosstöðvunum.