Líkamsárásirnar sem tilkynntar voru eru allar minniháttar. Bjarney Annelsdóttir yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum segir að í einu tilvikinu hafi ungur drengur tilkynnt um að annar hafi lamið sig. Gerandi sé óþekktur.
Tilkynnt hafi verið um hinar árásirnar við skemmtistaðinn Rána í Reykjanesbæ. Í annarri hafi þolandi verið með skurð á höfði en gerandi óþekktur. Í þeirri þriðju var kona með áverka á andliti og lögregla telur sig vita hver hafi verið að verki. Enginn hefur verið handtekinn vegna tilkynninganna.
„Við erum nokkuð sátt með síðustu nótt en það var talsverð ölvun, og miðað við veðrið í gær kom það okkur á óvart. En aðalkvöldið er í kvöld og við hvetjum fólk til að ganga hægt um gleðinnar dyr,“ segir Bjarney.
Verðið þið með sama viðbúnað í kvöld en í gær, eða ætliði að auka við hann?
„Það er meira en tvöfalt frá því í gær.“
Þannig að þið eruð við öllu búin?
„Við erum við öllu búin,“ segir Bjarney.
Með ólöglega gasskammbyssu
Þá virðist allt hafa farið vel fram á Októberfest á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni í gærkvöldi. Hvorki var tilkynnt um ofbeldisbrot né kvartað undan hávaða, að sögn lögreglu.
Þá var ökumaður sem stöðvaður var við hefðbundið umferðareftirlit í miðborginni handtekinn eftir að lögreglumenn komu auga á skaft af skotvopni í bílnum. Vopnið reyndist svokölluð gassskammbyssa, airsoft-byssa þar sem kúlum er skotið með gashylki. Slíkar byssur eru ólöglegar hér á landi. Einnig fannst stór hnífur og meint fíkniefni í bílnum, auk þess sem ökumaðurinn reyndist ölvaður. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu.