Prescott var að fara að byrja lokaárið sitt samkvæmt fyrri samningi en hefur nú skrifað undir samning til næstu fjögurra ára, sem tryggir honum heilar 240 milljónir Bandaríkjadala, samkvæmt frétt ESPN.
Það jafngildir meira en 33 milljörðum íslenskra króna, á fjórum árum, eða um 8,3 milljörðum króna á hverju ári. Prescott fær því tæpar 23 milljónir króna í laun á hverjum degi, eða rétt innan við milljón á hverri einustu klukkustund.
The Cowboys and Dak Prescott have agreed on a four-year, $240 million contract extension that will make him the highest-paid player in NFL history, per @AdamSchefter 💰 pic.twitter.com/CGNwy4NXkd
— Sports Illustrated (@SInow) September 8, 2024
Fréttirnar bárust rétt fyrir fyrsta leik Dallas á tímabilinu, gegn Cleveland Browns, sem sýndur er á Stöð 2 Sport 2.
Af þeim 240 milljónum Bandaríkjadala sem samningurinn er metinn á, þá er Prescott öruggur um að fá að minnsta kosti 231 milljón dala, samkvæmt frétt ESPN, burtséð frá meiðslum eða öðru sem upp á gæti komið.
Prescott, sem er 31 árs, var valinn í fjórðu umferð nýliðavalsins árið 2016. Hann er því að hefja sína níundu leiktíð og hefur alltaf spilað með Dallas. Á síðustu leiktíð leiddi hann Dallas til 12-5 tímabils fram að úrslitakeppni en þar féll liðið svo úr keppni í fyrstu umferð, gegn Green Bay Packers.
Samningur Prescott rétt svo toppar samninginn sem Deshaun Watson gerði við Cleveland Browns, sem metinn er á 230 milljónir Bandaríkjadala seamkvæmt ESPN.