„Staðan er reyndar sú að ríkisstjórnin hefur brugðist í stjórn efnahagsmála og það er ekkert í þessum fjármálum sem breytir því,“ segir Kristrún sem eins og fleiri fylgdist af athygli með kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra.
Kristrún er ekki hrifin.
„Ár eftir ár hefur ríkisstjórnin einbeitt sér að því að hlaupast undan eigin ábyrgð. Og bent á alla aðra. Í stað þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að ná stjórn á stöðu efnahagsmála. Þetta hefur verið mjög skaðlegt og dregið úr trúverðugleika hagstjórnarinnar. Því miður,“ segir Kristrún.
Hugleysi einkennir fjárlögin
Hún telur einsýnt að ríkisstjórnin vilji fela eigið getuleysi með því að benda statt og stöðugt á Seðlabankann.
„Við vitum öll að þegar ríkisstjórnin gerir minna — þá þarf Seðlabankinn að gera meira. Og þess vegna höfum við haft þessa miklu verðbólgu og háu vexti núna, alltof lengi.“
Kristrún bendir á að halli ríkissjóðs aukist lítillega frá því sem var samkvæmt fjármálaáætlun í vor. Nú stefni í níu ár af hallarekstri í viðbót. Til að mynda eru tugmilljarða aðgerðir vegna kjarasamninga enn ófjármagnaðar.
„Það er ekkert gert til að taka á þenslunni þar sem hún er í raun og veru,“ segir Kristrún og nefnnir í því sambandi „ehf.-gat, auðlindagjöld, bankaskatt …“ og fleira mætti nefna í því samhengi.

Þannig lýsir fjárlagafrumvarpið huglausi ríkisstjórnarinnar. „Húsnæðismál eru áfram í ólestri en þar eru himinnháir vextir, ekki ein ný íbúð í tengslum við Grindavík og ekkert gert til að taka á skammtímaleigu.“
Kristrún, sem renndi í fljótheitum yfir frumvarpið, segist ekki sjá neinar markvissar aðgerðir.
Þarf sterk bein til að taka ákvarðanir og þau sterku bein er ekki að finna í ríkisstjórn
„Þetta mallar bara áfram á sjálfstýringu eins og síðustu ár. Með litlum árangri.“
Og þetta aðgerðarleysi, hugleysi eða dugleysi eða hvað skal kalla þetta veldur miklum skaða og dregur úr trúverðugleika hagstjórnarinnar. Þráseta ríkisstjórnarinnar er að verða sjálfstætt vandamál í þessari háu verðbólgu og þessum háu vöxtum sem hér hafa verið alltof alltof lengi.
„Svo eru þarna fleiri þættir sem vert er að huga að. En nú verður þetta rætt og svo fer fram ítarleg umræða í nefndinni, en halli ríkissjóðs er að aukast, versna frá því sem lagt var upp með þó við vitum að það hafi aldrei reynt eins mikið á ríkisjóð og nú.“
Kristrún segist sjá kosningaveturinn gegnsýra fjárlagafrumvarpið. „Það þarf sterk bein til að taka afgerandi ákvarðanir en eins og staðan er núna er þessi þráseta og þetta ábyrgðarleysi farið að valda gríðarlegum skaða í efnahagslífinu.“