Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði RT um að standa fyrir leynilegum aðgerðum í Bandaríkjunum og fleiri ríkjum samkvæmt skipunum rússneskra leyniþjónustumanna sem svara beint til stjórnvalda í Kreml.
„Vopnavæðing Rússa á upplýsingafalsi til þess að grafa undan og valda sundrung í frjálsum og opnum samfélögum nær til allra heimshluta,“ sagði Blinken, á blaðamannafundi í dag.
Hvatti hann öll bandalagsríki Bandaríkjanna til þess að taka á RT með sama hætti og annarri leyniþjónustustarfsemi Rússlands innan landamæra þeirra.
Reyna að koma í veg fyrir að RT geti starfað utan Rússlands
RT, sem sendir út um allan heim, er sakað um að stofna vefsíður sem eru látnar líta út eins og lögmætar fréttasíður til þess að dreifa upplýsingafalsi og áróðri í Evrópu, Afríku, Suður-Ameríku og víðar. Þar var meðal annars safnað framlögum til þess að fjármagna hernaðinn í Úkraínu, að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.
Þá er rússneska leyniþjónustan sögð hafa stofnað einingu innan RT sem stundar tölvunjósnir.
Markmið refsiaðgerðanna sem voru kynntar í dag er að gera RT erfitt að stunda viðskiptum í dollurum og þannig minnka möguleika stöðvarinnar á að starfa utan Rússlands, að sögn New York Times.
Fjármögnuðu íhaldssama hlaðvarpsveitu á laun
Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að bandarísk yfirvöld ákærðu tvo starfsmenn RT fyrir að greiða bandarískum hlaðvarpsstjórnendum hægrisinnaðs fjölmiðils á laun til þess að dreifa út rússneskum áróðri og grafa undan kosningum í Bandaríkjunum.
Fyrr í sumar sökuðu bandarísk yfirvöld ritstjóra hjá RT um að vinna með rússnesku leyniþjónustunni FSB að því að stofna hundruð gervireikninga að samfélagsmiðlinum X til þess að dreifa efni stöðvarinnar.
Bandaríska leyniþjónustan telur að stjórnvöld í Kreml reyni enn og aftur að beita sér til þess að hjálpa Donald Trump að ná kjöri sem forseti á ný. Ástæðan sé meðal annars stuðningur ríkisstjórnar Joes Biden við Úkraínu.