Sport

Óttast um öryggi fjöl­skyldunnar og neyðist til að flytja

Valur Páll Eiríksson skrifar
Campbell hefur gert afar vel í starfi í Detroit en stuðningsmenn liðsins koma misvel fram.
Campbell hefur gert afar vel í starfi í Detroit en stuðningsmenn liðsins koma misvel fram. Nic Antaya/Getty Images

Dan Campbell, þjálfari Detroit Lions í NFL-deildinni, er að selja hús sitt í Detroit vegna ótta um öryggi fjölskyldu sinnar. Það er í kjölfar þess að stuðningsmenn liðsins fundu út hvar þjálfarinn á heima.

Tíðindin bárust í kjölfar taps Detroit Lions fyrir Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni um helgina. Campbell hefur snúið gengi Lions algjörlega við í stjóratíð sinni frá 2021 og kom liðinu í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð.

Það var í fyrsta skipti sem liðið komst þangað síðan 2016 og það vann að auki tvo leiki áður en það laut í lægra haldi fyrir San Francisco 49ers í úrslitum NFC-deildarinnar.

Í línu við aukinn árangur og sterkara lið hafa væntingar til liðsins aukist í Detroit-borg. Það voru því mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn þegar annar leikur tímabilsins tapaðist fyrir Baker Mayfield og félögum í Tampa Bay.

Campbell hefur fundið fyrir óþægilegri nærveru stuðningsmanna við hús sitt eftir tapleiki. Hann neyðist því til að setja heimili sitt á sölu eftir að þeir fundu út hvar fjölskylda hans býr.

Ég elskaði þetta heimili, hverfið og allt, segir Campbell í samtali við miðilinn Detroit Business. Þetta er rúmgott og fallegt. Það er bara það að fólk fann út hvar við búum eftir að við töpuðum, segir Campbell.

Heimilið er talið seljast á um 4,5 milljónir dala, rúmlega 616 milljónir króna. Campbell hefur þegar fundið kaupanda og stendur í flutningum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×