Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg sem var í raun komið í riðlakeppnina eftir ótrúlegan 7-0 sigur ytra á Fiorentina. Í liði gestanna var Alexandra Jóhannsdóttir í byrjunarliðinu.
Wolfsburg vann þægilegan 5-0 sigur þrátt fyrir að brenna af vítaspyrnu snemma leiks. Sveindís Jane spilaði allan leikinn og lagði upp fimmta markið en Alexandra var tekin af velli þegar tuttugu mínútur lifðu leiks.
Vålerenga hafði unnið frábæran útisigur á Anderlecht í fyrri leik liðanna þrátt fyrir að vera manni færri allan síðari hálfleikinn í Belgíu.
Liðið lenti ekki í álíka hremmingum í kvöld og vann gríðarlega sannfærandi 3-0 sigur á heimavelli. Sædís Rún kom inn af bekknum þegar tíu mínútur lifðu leiks.
Dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á föstudaginn kemur.