Lífið

Breskur Euro­vision-sigur­vegari látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Lee Sheridan, Sandra Stevens, Nicky Stevens og Martin Lee á tónleikum árið 1976.
Lee Sheridan, Sandra Stevens, Nicky Stevens og Martin Lee á tónleikum árið 1976. Getty

Breski söngvarinn Martin Lee, einn liðsmanna sveitarinnar Brotherhood of Man, er látinn. Hann lést á sunnudaginn, 77 ára að aldri.

Breskir fjölmiðlar greindu frá andláti Lee í gær en sveitin Brotherhood of Man bar sigur úr býtum í Eurovision árið 1976 þegar keppnin fór fram í Haag í Hollandi með lagi sínu Save All Your Kisses for Me.

Sveitin Brotherhood of Man var stofnuð árið 1969 og gekk Lee til liðs við sveitina þremur árum síðar. Sveitin naut mesta vinsælda á áttunda og níunda áratugnum þar sem sveitin átti fjölda smella. Enginn þeirra náði þó viðlíka vinsældum og Save All Your Kisses for Me sem er fyrir löngu orðið sígilt Eurovision-lag.

Sveitin leystist upp um miðjan níunda áratuginn en kom svo aftur saman og var á tónleikaferðalögum allt til ársins 2020.

Meðal annarra smella sveitarinnar má nefna Kiss Me Kiss Your Baby, Angelo, Oh Boy (The Mood I'm In) og Figaro.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×