Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að kaupsamningur þáverandi borgarstjóra og fjármálaráðherra árið 2013, flokkssystkinanna Dags B. Eggertssonar og Katrínar Júlíusdóttur, var forsenda þess að borgin gat skipulagt landið undir húsbyggingar.

Meira en tvö ár eru frá því borgin hóf að úthluta lóðum á þessu umdeilda svæði. En það er fyrst núna, með nýjum innviðaráðherra, sem Isavia fær skipun um að færa flugvallargirðinguna svo borgin geti byrjað að byggja.
Alþingismaðurinn og flugumferðarstjórinn Njáll Trausti Friðbertsson bregst hart við.
„Fyrir mér eru þetta bara árásir á flugvöllinn og þessar árásir hafa staðið lengi yfir,“ segir Njáll Trausti, sem er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, formaður fjárlaganefndar og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.
„Og það er bara komið að þeirri ögurstundu núna, nákvæmlega þegar skipunin er komin núna frá innviðaráðuneytinu, frá ráðherra þess málaflokks, að fjarlægja þessa girðingu, þá sé komið að þessum vendipunkti þar sem menn þurfa að bregðast við pólitískt,“ segir þingmaðurinn.

Fyrirmæli Svandísar um afhendingu Skerjafjarðarlandsins komu í aðdraganda þess að hún og Einar Þorsteinsson borgarstjóri fylgdu skýrslu um Hvassahraun úr hlaði með þeim orðum að flugvöllur þar mætti skoðast betur. Njáll Trausti túlkar þá skýrslu með öðrum hætti.
„Hvassahraunsskýrslan er raunverulega bara dómur um það að það er enginn að fara að byggja eða leggja flugvöll í Hvassahrauni.
Þetta er besti kosturinn sem við höfum í stöðunni núna hér á suðvesturhorninu,“ segir Njáll Trausti og á þar við Reykjavíkurflugvöll.
„Við þurfum tvo flugvelli. Það er öllum ljóst. Þetta er innanlandsflugið, sjúkraflugið og varaflugvallakerfið. Við þurfum að eiga plássið.“
Og telur nýjar húsbyggingar skerða rekstraröryggi vallarins.

„Það er verið að byggja hús bara algerlega upp að flugbrautunum. Og það er þekkt og hefur verið mikil umræða á síðustu árum og atvinnuflugmenn hafa bent á í löngu máli.“
-Svandísi tókst að stöðva hvalveiðarnar þrátt fyrir ykkar mótmæli. Þið breyttuð engu. Munu þið breyta nokkru hér?
„Það ætla ég svo sannarlega að vona. Þetta hérna er raunverulega miklu alvarlegra mál heldur en hvalveiðimálið.
Og það má ekki gerast fyrir okkar samfélag að þetta rugl nái í gegn; að þessi girðing verði færð og farið í byggingar þarna upp við brautirnar.
Þetta er lykilöryggisinnviður í þessu landi, grunninnviður samfélags, og hann á að verja með fullum hnefa,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má heyra Orra Eiríksson, verkfræðing og flugstjóra, fulltrúa öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, lýsa afstöðu sinni í fyrra til áforma um húsbyggingar á svæðinu: