Frá þessu greindu meðal annars Sky og Bild í Þýskalandi og Red Bull hefur nú staðfest ráðninguna.
Klopp mun taka við sem „alþjóða yfirmaður fótboltamála“ hjá Red Bull, og taka til starfa þann 1. janúar næstkomandi. Um langtímasamning er að ræða.
Florian Plettenberg, fréttamaður Sky í Þýskalandi, segir að í samningnum sé hins vegar skýr klásúla um það að Klopp megi hætta hvenær sem er bjóðist honum að taka við þýska landsliðinu, þegar Julian Nagelsmann hættir.
🚨🧨 Excl | Jürgen #Klopp will become the new „Global Head of Soccer“ at Red Bull ✔️
— Florian Plettenberg (@Plettigoal) October 9, 2024
.. starting on January 1, 2025. Klopp has already signed a long-term contract.
⚠️ Additionally, Klopp has secured an exit option allowing him to become the head coach of the Germany national… pic.twitter.com/eBzXKSQ85V
Red Bull á félögin RB Leipzig í Þýskalandi, Red Bull Salzburg og FC Liefering í Austurríki, Red Bull Bragantino í Brasilíu og New York Red Bulls í Bandaríkjunum.
Hlutverk Klopps verður meðal annars að ráðleggja öllum þessum félögum varðandi þjálfun, leikhugmyndafræði, og þróun og kaup á ungum leikmönnum og þjálfurum.
Klopp hefur verið án starfs síðan í maí þegar hann kvaddi Liverpool eftir níu ár sem knattspyrnustjóri félagsins. Þar naut hann gríðarlegra vinsælda, rétt eins og þegar hann stýrði Dortmund árin 2008-2015 og Mainz þar áður.
Þegar hann hætti hjá Liverpool kvaðst hann ekki ætla að þjálfa aftur á næstunni: „Ekkert félagslið eða landslið næsta árið. Ég get lofað því. Auðvitað geri ég samt eitthvað annað á einhverjum tímapunkti. Ég er of ungur til að fara bara í padel og leika við barnabörnin. Kannski finn ég eitthvað annað,“ sagði Klopp sem nú hefur fundið eitthvað annað.