Körfubolti

Hún er svo klár og því er þetta ekki svo hræði­legt

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibjörg Jakobsdóttir fór yfir málin í nýjasta þætti Körfuboltakvölds í fyrrakvöld.
Ingibjörg Jakobsdóttir fór yfir málin í nýjasta þætti Körfuboltakvölds í fyrrakvöld. Stöð 2 Sport

Sérfræðingunum í Bónus Körfuboltakvöldi kvenna fannst sigur Grindavíkur á Val í vikunni óþarflega naumur. Grindvíkingar unnu með sex stigum, 67-61.

Alexis Morris, sem varð bandarískur háskólameistari með LSU í fyrra, lék sinn fyrsta leik fyrir Grindavík. Hún hitti úr 38% skota sinna en var stigahæst liðsins með 23 stig. Hún tók sex fráköst og fjórar stoðsendingar en Hörður Unnsteinsson, stjórnandi Körfuboltakvölds, velti því upp hvort sóknarleikur Grindavíkur væri ekki enn ansi ósmurður vegna þess hve nýkomin Morris væri:

„Getum við skellt skuldinni á innkomu Alexis Morris og taktleysi þess vegna?“ spurði Hörður og Ingibjörg Jakobsdóttir svaraði:

„Jú, jú. Við vitum alveg hvernig það er að fá inn nýjan leikmann sem er kannski búinn að mæta á æfingar í viku. Hún á náttúrulega að taka boltann og stjórna sóknarleiknum, og þess vegna verður þetta svona stíft og stamt. Það sem að reddar þessu er hversu klár leikmaður hún er. Þess vegna er þetta ekki svona hræðilegt.“

Ólöf Helga Pálsdóttir tók við boltanum:

„Grindavík er með rosalega góða leikmenn í hverju horni og Lalli [Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur] á við lúxusvandamál að glíma. Hann er eiginlega með of marga leikmenn. Ef ég taldi rétt þá voru sjö skiptingar bara í fyrsta leikhluta. Það er engin að komast í takt við leikinn. Skiptingarnar voru svo örar. Það voru einhverjir 9-10 leikmenn með bara í fyrsta leikhluta,“ sagði Ólöf Helga en umræðuna alla má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×