Körfubolti

Öll liðin komin með sigur eftir að Þór skellti Grinda­vík

Sindri Sverrisson skrifar
Hulda Björk Ólafsdóttir og stöllur í Grindavík léku á Akureyri í kvöld.
Hulda Björk Ólafsdóttir og stöllur í Grindavík léku á Akureyri í kvöld. vísir/Diego

Öll liðin í Bónus-deild kvenna í körfubolta eru komin með sigur, þó að þriðju umferð sé enn ekki lokið, eftir að Þór vann tíu stiga sigur gegn Grindavík á Akureyri í kvöld, 81-71.

Grindavík var yfir eftir fyrsta leikhluta, 21-19, en fyrri hálfeikurinn var jafn og aldrei mikill munur á liðunum. Þórsarar sneru stöðunni sér í vil fyrir lok hans og var staðan þá 46-41 þeim í vil.

Þór jók muninn í 65-55 í þriðja leikhluta og náði svo fljótt að gera útum leikinn í flokaleikhlutanum, þar sem liðið náði mest nítján stiga forskoti en Grindavík náði þó að laga stöðuna áður en yfir lauk.

Franski leikstjórnandinn Amandine Toi fór á kostum og skoraði 27 stig fyrir Þór auk þess að taka sex fráköst. Fyrirliðinn Maddie Sutton skoraði tólf stig, tók fjórtán fráköst og gaf níu stoðsendingar, og Eva Wium Elíasdóttir skoraði fjórtán stig og tók fimm fráköst. Hrefna Ottósdóttir skoraði tólf stig og Esther Fokke einnig, en byrjunarlið Þórs skoraði 77 af stigum liðsins í kvöld.

Hjá Grindavík var Alexis Morris langstigahæst með 35 stig en hún hitti úr 52% skota sinna og var samt með langbestu nýtinguna í byrjunarliði Grindvíkinga. Katarzyna Trzeciak var næststigahæst með þrettán stig.

Grindavík og Þór eru því bæði með tvö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Fyrr í kvöld unnu Haukar risasigur gegn Stjörnunni og Tindastóll hafði betur gegn Njarðvík í miklum spennuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×