Mazzulla var í útvarpsviðtali í íþróttaþætti í Boston og talið barst að reglum leiksins.
Mazzulla vildi þar meðal annars breyta reglunum um tæknivillur. Hann vill frekar að liðið sem fær á sig tæknivilluna missi leikmann út af í nokkrar sekúndur í stað þess að mótherjinn fái eitt vítaskot.
Honum finnst ekki nógu mikil refsing að mótherjinn fái eitt víti sem verður engin refsing ef leikmaðurinn klikkar á vítinu.
Mazzulla sér þetta fyrir sér þannig að lið spili frekar fimm á móti fjórum í stuttan tíma. Leikmaðurinn í skammarkróknum megi ekki yfirgefa miðjuhringinn fyrr en eftir fimm sekúndur.
Þetta var áhugaverð hugmynd enda svipaðar reglur við lýði í nokkrum öðrum íþróttagreinum.
Enn róttækari var þó hugmynd Mazzulla um að leyfa slagsmál í NBA.
Það er mjög hart tekið á grófum leik í dag og mun minna um harkaleg brot. Sú var ekki raunin á árum áður.
NBA deildin fór í átak gegn slagsmálum á níunda og tíunda áratugnum og leikmenn fá meðal annars leikbönn ef þeir yfirgefa bekkinn til að taka þátt í átökum inn á vellinum.
„Ég vildi óska þess að við fengjum aftur slagsmál í deildina. Þið eruð að tala um að það vanti meira skemmtanagildi í deildina. Hvað er skemmtilegra en smá handalögmál,“ spurði Joe Mazzulla.
„Hvernig stendur á því að þeir leyfa átök í hafnabolta og í íshokkí ég ekki í körfubolta. Ég skil þetta ekki,“ sagði Mazzulla.