Körfubolti

Sendu Bronny James niður í G-deild og allir miðarnir seldust upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feðgarnir Bronny James og LeBron James hita upp fyrir leik hjá Los Angeles Lakers en strákurinn er ekki að fá að spila mikið í NBA.
Feðgarnir Bronny James og LeBron James hita upp fyrir leik hjá Los Angeles Lakers en strákurinn er ekki að fá að spila mikið í NBA. Getty/ Jason Miller

Bronny James, sonur LeBron James, er á leiðinni í þróunardeild NBA, svokallaða G-deild, eftir að hafa byrjað tímabilið með föður sínum í Los Angeles Lakers.

Hinn tvítugi Bronny mun spila með South Bay Lakers en verður síðan kallaður aftur inn í lið Lakers þegar G-deildarliðið er að spila á útivelli. Talið er að hann flakki á milli liðanna tveggja næstu mánuði.

Strákurinn var með Los Angeles Lakers á móti Philadelphia 76ers í nótt en fer síðan til South Bay í dag. Bronny spilaði eina mínútu á móti 76ers en að verða fertugur faðir hans var með þrennu í sigrinum, skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

James feðgarnir urðu þeir fyrstu í sögunni til að spila saman í NBA-deildinni í fyrsta leiknum á móti Minnesota Timbervwoles en strákurinn hefur ekki spilað mikið á tímabilinu.

Bronny er alls með 4 stig á 14 mínútum spiluðum og hefur komið við sögu í fjórum leikjum. Fyrsta karfan hans kom í leik í Cleveland þar sem faðir hans spilaði fyrst í NBA.

Fyrsti leikur South Bay Lakers verður í kvöld og það er óhætt að segja að áhuginn á miðum hafi aukist mikið við fréttirnar af komu Bronny. Hann fær væntanlega að spila þar sem er mikilvægt fyrir þróun hans sem leikmanns.

Miðar á leikinn í kvöld seldust strax upp og menn eru að selja þá fyrir 200 dollara, 28 þúsund krónur, á endursölumarkaðnum. Það er tólf sinnum hærra en þeir kostuðu upphaflega.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×