Skoðun

Kjósum Lilju Dögg Alfreðsdóttur á Al­þingi

Andri Björn Róbertsson skrifar

Lilja Dögg hefur verið gríðarlega öflugur ráðherra og komið afar mörgum mikilvægum málum til leiðar. Hún hefur verið ötull verndari íslenskunnar og t.a.m. staðið fyrir því að snjalltæki og ChatGPT geta nú skilið íslensku og beitt sér fyrir því að Disney+ býður nú upp á talsett barnaefni á íslensku.

Sem ráðherra menningarmála hefur Lilja Dögg verið einstaklega kröftug og það hefur verið sérstaklega ánægjulegt hversu vel hún hefur unnið með listasamfélaginu öllu og hagaðilum við að tryggja að fagmennska sé höfð að leiðarljósi við vinnslu þeirra mála sem hún hefur komið að. Af mörgum gríðarstórum framfaraskrefum sem hún hefur komið í gegn fyrir listir og menningu er stofnun Tónlistarmiðstöðvar, nýr og stærri Tónlistarsjóður, Myndlistarmiðstöð, ný sviðslistalög, stofnun Sviðslistastofnunar, fyrsti kjarasamningur danshöfunda við Þjóðleikhúsið, fjölgun Listamannalauna í fyrsta sinn í 15 ár og stækkun verkefnasjóða, og frumvarp um stofnun Þjóðaróperu, sem mun gjörbylta starfsumhverfi klassískra söngvara á Íslandi og umgjörð óperulistarinnar. Nú nýlega tryggði hún að kvikmyndasjóður og sviðslistasjóður fengju ekki þá skerðingu sem til stóð í núverandi fjárlagafrumvarpi.

Ég hef fengið að kynnast Lilju Dögg í samskiptum okkar vegna frumvarps um Þjóðaróperu. Ég hef séð hversu mikið Lilja brennur fyrir þau málefni sem hún berst fyrir. Hún er eldklár, heiðarleg, hörkudugleg, fylgin sér, fagleg og vill koma hlutum í verk. Í ofanálag er hún sérlega skemmtileg og til í að ræða málin til að komast að réttri niðurstöðu hverju sinni. Það hefur verið unun að fylgjast með vinnu hennar með listasamfélaginu við mótun þeirra mála sem hún hefur unnið að. Þakklæti er mér efst í huga.

Lilja Dögg er einn allra öflugasti stjórnmálamaður Íslendinga og Alþingi verður svo sannarlega fátækara ef það fær ekki að njóta hennar krafta. Og listasamfélagið mun einnig missa sinn sterkasta bandamann á Alþingi.

Fylkjumst því um Lilju Dögg og tryggjum að hún hljóti brautargengi í Alþingiskosningunum 30. nóvember næstkomandi.

Höfundur er óperusöngvari og stjórnarmaður í Klassís.




Skoðun

Sjá meira


×