Í skýrslunni segir að íbúar sem áttu lögheimili í Grindavík í nóvember 2023 hafi verið að baki einum af hverjum fjórum kaupsamningum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins í ár. Alls hafi 714 kaupendur frá Grindavík gengið frá kaupum á árinu um land allt.
Á síðustu mánuðum hafi þó dregið úr þessum „áhrifum“ á fasteignamarkaðinn en þinglýstir kaupsamningar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafi verið álíka margir í ágúst síðastliðnum og á sama tíma í fyrra og kaupverðsjá bendi til þess að haustið hafi í raun einnig verið svipað og í fyrra.
Bilið á leiguverði að breikka
Fasteignamarkaðurinn hafi kólnað á haustmánuðum samanborið við vor og sumar en eftirspurn sé engu að síður mikil í sögulegu samhengi. Framboð hafi aukist en eftirspurn eftir ódýrum íbúðum sé mikið sem bendi til þess að auglýstar íbúðir séu ekki verðlagðar í takt við þarfir markaðarins.
Í skýrslunni segir einnig að leiguverð hafi hækkað aftur eftir tveggja mánaða lækkun en greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkað mun hraðar en leiguverð á síðustu árum. Airbnb-íbúðir á markaði voru rúmlega 9.000 talsins í sumar og meirihlutinn skráður á leigusala eða leigumiðlara.
„Bilið hefur breikkað á milli markaðsleigu og leiguverðs íbúða sem ekki eru reknar á hagnaðarforsendum á síðasta ári. Íbúðir í eigu einstaklinga og leigusala eru leigðar út á 250 til 350 þúsund krónum á mánuði, á meðan íbúðir í eigu sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna leigufélaga eru leigðar út á 100 til 200 þúsund krónum á mánuði,“ segir í skýrslunni.