„Þetta skilaði árangri í nótt. Við vorum búin að hafa mikla trú á verkefninu allt frá því að við aflýstum þessari fyrstu lotu verkfalla. Við bara unum okkur ekki hvíldar fyrr en þetta kláraðist og það var mjög góð tilfinning,“ segir Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands.
Hún segir að nýr kjarasamningur verði fyrst kynntur fyrir félagsmönnum og það sé planið að vera með fund á mánudagskvöldið í næstu viku. Eftir það muni þau fara um landið til að kynna samninginn fyrir læknum sem starfa víðs vegar um landið.
„Við vonum innilega að læknum lítist eins vel á samninginn og okkur.“
Steinunn segir að horft hafi verið á aðferðafræði betri vinnutíma sem gangi út á það að draga úr álagi og bæta jafnvægi á milli vinnu og einkalífs hjá læknum.
„Við náðum þarna loks að stytta vinnuviku lækna í 36 tíma eins og hefur verið gert fyrir allar aðrar heilbrigðisstéttir, nema lyfjafræðinga, þannig það er stór áfangi. Við erum að horfa á nýjar og betri útfærslur á vaktafyrirkomulagi og það eru ýmsar breytingar þarna sem við sjáum fyrir okkur að muni bæta vinnuumhverfi.“