Þessi ákvörðun er tekin eftir mikla gagnrýni og boðaðar aðgerðir stéttarfélagsins Eflingar gagnvart veitingastöðum undir hatti SVEIT samkvæmt tilkynningu. Þar segir jafnframt að boðaðar aðgerðir Eflingar gegn SVEIT séu fordæmalausar og að þær vegi að atvinnuöryggi tugi lítilla fyrirtækja.
„SVEIT hafnar því alfarið að verið sé að brjóta á lögbundnum rétti starfsfólks með kjarasamningi við Virðingu, en hefur engu að síður ákveðið að endurskoða kjarasamninga með tilliti til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið. Sú vinna er þegar hafin og er það von SVEIT að Efling láti af fyrirhuguðum aðgerðum meðan sú endurskoðun stendur yfir,“ segir í tilkynningunni.
Fram kom í tilkynningu frá Eflingu fyrr í dag að fimmtungur meðlima SVEIT hefði sagt sig úr samtökunum eftir að Efling tilkynnti um aðgerðir gegn þeim. Formaður Eflingar sagði aðgerðirnar gríðarlega nauðsynlegar.
Í tilkynningu frá SVEIT segir að þau séu stærstu atvinnurekendasamtök á veitingamarkaði, og að þau hafi unnið að því að styrkja stoðir veitingareksturs á landinu. Það hafi verið miklir erfiðleikar í greininni og það sjáist á þungum rekstri fjölda veitingastaða.
Þá segir að SVEIT hafi gert kjarasamning við Virðingu eftir að Efling hafnaði kjaraviðræðum við SVEIT og að taka mið af eðli veitingareksturs.
„Með þeim samningum, sem gerðir voru til samræmis við kjarasamninga veitingastaða á Norðurlöndunum, var starfsfólki veitingastaða tryggð hærri dagvinnulaun og bætt kjör, starfsfólki og rekstraraðilum til hagsbóta,“ segir í tilkynningu SVEIT.
Þá segir að forsvarsfólki Eflingar hafi verið boðið til samtals um málið en að því boði hafi ekki verið svarað. Formaður Eflingar sagði í viðtali við hádegisfréttir Bylgjunnar í dag að enginn frá Virðingu hefði sett sig í samband við Eflingu og að formaður SVEIT hefði boðið henni í óformlegt kaffispjall. Hún taldi það til marks um að samtökin tækju málinu ekki alvarlega.