Sprengingin varð í vélarrúminu um áttaleytið í gær að íslenskum tíma og voru þrír áhafnarmeðlimir þar inni. Tveir þeirra voru fluttir á sjúkrahús en einn lést af áverkum sínum. Áhöfnin slökkti eldinn sem kviknað hafði um borð í kjölfar sprengingarinnar.
Hinir særðu hlutu brunasár og reykeitrun og hlúð er að þeim á sjúkrahúsi. Áhöfninni hefur öll verið boðin áfallahjálp.
„Þetta er sorglegur dagur hjá okkur öllum í Smyril Line og hugur okkar eru hjá aðstandendum,“ hefur Dimmalætting eftir Jens Meinhard Rasmussen forstjóri Smyril Line.
Samkvæmt ríkisútvarpi Færeyja er bæði hinn látni og hinir særðu Færeyingar. Staða hinna særðu er alvarleg.