Lífið

Guð­mundur í Brim nældi í treyjuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásta Einarsdóttir, Guðmundur Kristjánsson, Glódís Perla og Erna Magnúsdóttir við afhendingu styrksins.
Ásta Einarsdóttir, Guðmundur Kristjánsson, Glódís Perla og Erna Magnúsdóttir við afhendingu styrksins. Ljósið

Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir, nýkjörinn íþróttamaður ársins, seldi áritaða treyju sína úr 3-0 sigrinum á Þýskalandi síðasta sumar til útgerðarmannsins Guðmundar Kristjánssonar, oft kenndur við Brim.

Um var að ræða uppboð til styrktar Ljósinu sem sérhæfir sig í endurhæfingu fyrir fólk sem greinist með krabbamein. Guðmundur og Glódís mættu í heimsókn í Ljósið á Langholtsvegi 43 í Reykjavík á Þorláksmessu og færðu samtökunum eina milljón króna, upphæðina sem Guðmundur greiddi fyrir treyjuna.

Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Ljóssins, tók við styrknum ásamt Ástu Einarsdóttur úr stjórn Ljóssins.

„Við þökkum Glódísi og Guðmundi innilega fyrir þetta rausnarlega framlag sem mun nýtast Ljósinu til að halda áfram mikilvægri starfsemi sinni,“ segir á heimasíðu Ljóssins.

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

Húsnæði Ljóssins er eins og fallegt heimili þar sem hægt er að koma í kaffihúsastemningu og spjalla við náungann. Til að auka virkni og þrek býður Ljósið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Má þar nefna heilsutengd námskeið, námskeið fyrir nýgreindar konur, fræðslufundi fyrir karlmenn, jógahópa, gönguhópa, líkamsrækt, handverkshópa, nudd og fleira.

Þátttakendur í Ljósinu koma að eigin frumkvæði og áhuga og raða saman dagskrá sem hentar hverju sinni í samráði við fagaðila. Í Ljósinu er mikið unnið með lífsgæðin og lífsgleðina og lítið er talað um sjúkdóma og veikindi.

Ljósið er opið mánudaga til fimmtudaga á milli 8:30 og 16:00, og föstudaga á milli 8:30 og 14:00 auk þess sem sérskipulögð námskeið eru á kvöldin og laugardögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.