Slysið varð 30. október 2023, þegar Ibrahim Shah Uz-Zaman átta ára hjólaði inn á bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka í Hafnarfirði. Ökumaður steypubílsins kom akandi úr sömu átt, beygði inn á stæðið og ók á Ibrahim, sem lést samstundis.
Bílstjórinn hefur nú verið ákærður eins og áður segir. Aðalmeðferð í málinu er á dagskrá 20. janúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjaness, að sögn Hildar Sunnu. Bílstjórinn er einn ákærður í málinu.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði slysið og birti skýrslu sína í dag. Þar kemur fram að bílstjórinn hafi ekki veitt Ibrahim athygli, drengurinn hafi líklega verið sýnilegur í hliðarspeglum bílsins í rúmar tuttugu sekúndur fyrir slysið. Þá sé sennilegt að stefnuljós hafi ekki verið notað þegar slysið varð.