Nú hef ég ekki miklar upplýsingar um ykkur og finn strax hvað það vakna margar spurningar hjá mér. Með hverjum hélt hann framhjá? Var það einu sinni eða oftar? Hvernig komst þú að því? Hvernig hefur samband ykkar verið fram að þessu? Hafið þið upplifað önnur áföll í sambandinu? Hafið þið leitað til pararáðgjafa?
Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.
En byrjum bara á byrjuninni. Það er fullkomlega eðlilegt að vera enn í sárum ári seinna. Fyrir mörg sem þurfa að vinna úr framhjáhaldi tekur það gjarnan lengri tíma en þau hefði órað fyrir. Það tekur bæði tíma að vinna úr því sem svikin hafa tekið frá þér en einnig tekur tíma að byggja upp sambandið aftur. Framhjáhald sviptir okkur ekki bara því trausti sem áður var í sambandinu heldur getur það svipt okkur sjálfsörygginu, gleðinni og þeirri vellíðan sem við fundum áður í sambandinu og jafnvel í eigin skinni.
Þegar upp kemst um framhjáhald er mjög misjafnt hvaða viðbrögð koma upp hjá þeim sem var svikinn. Oft sit ég með fólki sem segir mér:
„Ég hélt alltaf að ég myndi labba í burtu eða að ég myndi aldrei sætta mig við neitt í líkingu við þetta.“ En eins og með margt í lífinu þá er öðruvísi að standa í þessum sporum eða ímynda sér þessar aðstæður.
Ekki öll pör geta unnið úr framhjáhaldi
Sumum pörum tekst ekki að vinna úr framhjáhaldi og þá tekur skilnaðarferli við. Í þeim tilfellum upplifir annar eða báðir aðilar að það sé ekki hægt að vinna sig út úr þeim svikum sem upp hafa komið. Önnur pör halda áfram að vera saman og leggja af stað í þá vegferð að vinna úr framhjáhaldinu. Í þó nokkur skipti hef ég heyrt pör lýsa því að fyrra sambandið hafi í raun endað þegar svikin komu í ljós og nýtt samband orðið til.
Sambandið verður skiljanlega aldrei alveg eins og það var áður. Það er því ómögulegt að bera saman tímann fyrir og eftir svik. Fyrir sum pör felst nýi kaflinn í miklu uppgjöri, samtölum, pararáðgjöf og sjálfsvinnu. Þá verður nýi kaflinn mjög frábrugðinn þeim köflum sem á undan komu! Í viðtölum hef ég heyrt pör lýsa því hvernig tenging þeirra hefur þroskast, breyst eða jafnvel orðið dýpri, ekki vegna framhjáhaldsins heldur þeirri vinnu sem parið lagði í uppbyggingu sambandsins í kjölfar svikanna.
En hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar þú ert að vinna úr svikum eða framhjáhaldi?
- Það að vinna úr framhjáhaldinu er á herðum ykkar beggja. Báðir aðilar þurfa að leggja á sig alls konar vinnu, sitt í hvoru lagi og saman.
- Sá sem sveik þarf að axla ábyrgð, sýna maka sínum að hann/hún/hán sjái þann sársauka sem hegðun þeirra hefur valdið og í einlægni biðjast fyrirgefningar. Einnig skiptir gífurlegu máli að vera gagnsær, þolinmóður og vinna hörðum höndum að því að endurbyggja traustið.
- Sá sem verður fyrir svikunum þarf að fá rými til að vinna úr þeim sársauka og skoða hvort þú treysti þér í þá vinnu að byggja upp sambandið á ný. Það er ekki sjálfgefið að treysta sér í þá vinnu en þá er líka gott að vera heiðarleg með það. Að vinna úr sársaukanum og reiðinni eru lykilþættir.
- Passið ykkur að detta ekki í þá gryfju að ræða framhjáhaldið í smáatriðum. Við viljum oft vita ALLT! En það þjónar ekki tilgangi að fá of miklar upplýsingar, þá verða til nýjar og nýjar kveikjur (e. triggers) sem minna á framhjáhaldið. Sumt er mikilvægt að fá upplýsingar um en staldrið við áður en þið eruð farin að ræða smáatriðin.
- Það er gott að skoða hvernig sambandið var fyrir svikin. Hvernig gekk ykkur að rækta sambandið? Hafið þið rætt mörk og hvað felst í framhjáhaldi? Ef ekki, er það mjög mikilvægt samtal! Hvað er framhjáhald eða svik í ykkar huga? Og eruð þið sammála um þessi atriði?
- Ég mæli að lokum með því að vinna með fagaðila. Pararáðgjöf getur verið mjög hjálpleg en líka einstaklingsmeðferð.
Við Indíana Rós, kynfræðingur, fjöllum um framhjáhald í nýlegum þætti af hlaðvarpinu Kynlífið sem finna má hér:
Til þín kæri lesandi vil ég segja að aðeins þú getur í raun ákveðið hvort sambandið sé dauðadæmt. Spurningin er ekki aðeins hvort þú treystir þér í þá vinnu að byggja upp sambandið á ný heldur hvort þú viljir það.
Gangi þér vel <3
Alla pistla Aldísar má finna á sama stað á Vísi.