Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, tjáði sig um árásina í morgun. Hann sagði hana hafa verið umfangsmikla og benti á að nú væri hávetur og að skotmörk Rússa væru þau sömu og áður. Orkuinnviðir.
„Meðal skotmarka þeirra voru gas og orkuinnviðir sem viðhalda eðlilegu lífi okkar fólks,“ sagði Selenskí.
Hann sagði einnig að orkukerfið væri enn standandi, ef svo má segja, en sagði mikilvægt að styrkja loftvarnir Úkraínu. Það hefur verið í forgangi í Kænugarði um langt skeið.
Selenskí sagði að Úkraína ætti enn eftir að fá loftvarnarkerfi sem þeim hefði verið lofað. Þá væru yfirstandandi viðræður um leyfi til að framleiða þessi kerfi og flugskeyti í þau í Úkraínu.
„Þetta er bæði raunhæft og nauðsynlegt að fá í gegn.“
Another massive Russian attack. It's the middle of winter, and the target for the Russians remains unchanged: our energy infrastructure. Among their objectives were gas and energy facilities that sustain normal life for our people. Over 40 missiles were launched in this attack,…
— Volodymyr Zelenskyy / Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) January 15, 2025
Herforingjaráð Úkraínu segir að þrjátíu eldflaugar hafi verið skotnar niður og 47 drónar.
Úkraínumenn gerðu í fyrrinótt umfangsmiklar árásir í nokkrum héruðum Rússlands.
Úkraínumenn nota að mestu jarðgas til að hita heimili sín og til að elda mat. Stærstu gasgeymslur ríkisins eru í vesturhluta landsins en Reuters hefur eftir ríkisstjóra Lviv að árásin hafi valdið skaða á orkuinnviðum þar.
Rússar hafa gert tíðar árásir á orkuinnviði Úkraínu um langt skeið. Þær hafa dregið verulega úr orkuframleiðslu í ríkinu og er rafmagnsleysi algengt víðsvegar um landið. Reynt hefur verið að bæta fyrir framleiðsluskortinn með ljósavélum, sólarsellum og öðrum leiðum og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina.