Innlent

Ör­lítið hægt á land­risi en enn líkur á kviku­hlaupi eða eld­gosi um mánaða­mót

Lovísa Arnardóttir skrifar
Síðasta eldgos á svæðinu hófst 20. nóvember og lauk 8. desember.
Síðasta eldgos á svæðinu hófst 20. nóvember og lauk 8. desember. Vísir/Vilhelm

Landris heldur áfram á Sundhnúksgígaröðinni en hraðinn minnkað örlítið. Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að þessi breyting hafi ekki áhrif á fyrra mat Veðurstofunnar um líklega atburðarás á svæðinu.

Jarðskjálftavirkni frá því að síðasta eldgosi lauk, 9. desember síðastliðinn, þar til dagsins í dag hefur verið mest áberandi í kringum Trölladyngju og aðeins í Fagradalsfjalli, en virknin hefur verið mjög lítil í kringum Sundhnúk og Svartsengi.

Í tilkynningu segir að GPS-mælingar sýn að hraði landriss hafi minnkað örlítið á síðustu vikum. Það geti verið varasamt að túlka einstaka GPS-punkta því truflun á þessum árstíma valdi því að breytileiki milli daga er meiri vegna veðuraðstæðna. Í staðinn þurfi að horfa á mælingar yfir lengri tíma, en þær sýna áframhaldandi landris.

Líkur á kvikuhlaupi aukast um mánaðamót

Þá kemur fram að samkvæmt líkanreikningum megi því enn gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast í lok janúar eða byrjun febrúar

„Atburðarásin er því enn í fullum gangi og er að þróast mjög svipað og fyrir síðustu gos. Samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar. Þetta þýðir að það má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast frá þeim tíma,“ segir í tilkynningunni.

Hættumat frá 14. Janúar er enn í gildi en verður uppfært 28. janúar, að öllu óbreyttu. Í tilkynningu segir að það muni taka mið af auknum líkum á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi samkvæmt fyrrnefndri tímalínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×